Hlutabréfaverð í Högum hefur lækkað um 2,1% það sem af er degi í viðskiptum í Kauphöll Íslands í dag. Velta um miðjan viðskiptadag nemur rúmlega 160 milljónum króna. Gengi bréfanna var í hádeginu 18,6 krónur fyrir hlut en var 18,75 krónur í upphafi dags. Mest hafa bréfin lækkað um tæplega 3% í viðskiptum í dag og hafa sveiflast á bilinu 18,75 til 18,45 krónum.

Félagið birti ársuppgjör síðasta árs í dag. Hagnaður síðasta árs nam rúmlega 2,3 milljörðum króna. Lesa má um uppgjörið hér .

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag er greint frá því að Jóhannes Jónsson, einn af fyrrum eigendum Haga og stofnandi Bónus-verslananna sem tilheyra Högum, muni opna nýjar verslanir í sumar í samstarfi við Malcolm Walker. Um lágvöruverslanir verður að ræða, að sögn Jóhannesar.

Mikil velta hefur verið með bréf Haga í vikunni. Á mánudag seldi Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, tæplega 1% hlut og á nú 4,99% í félaginu. Alls skiptu rúmlega 46 milljónir hluta í Högum um hendur á mánudag og þriðjudag, eða tæplega 4% alls hlutafjár. Velta með bréfin nam rúmlega 866 milljónum þessa daga en hún nam um 87 milljónum í viðskiptum í gær.