*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 30. apríl 2018 11:10

Hagar lækka um 4,76%

Um helgina var greint frá því að Samkeppniseftirlitið myndi ekki fallast á tillögur Haga um skilyrði fyrir sameiningu við Olís.

Ritstjórn
Finnur Árnason er forstjóri Haga.
Haraldur Guðjónsson

Bréf Haga hafa lækkað um tæplega 4,8% síðan markaðir opnuðu í morgun og bréf N1 um tæpt 3,1%. Um helgina sendu Hagar frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að Samkeppniseftirlitið myndi ekki fallast á tillögu Haga um skilyrði sem fyrirtækið lagði til svo kaup þeirra á Ólís yrðu heimiluð. 

Líklegt er að markaðsaðilar líti á tilkynningu Haga sem vísbendingu um hvernig Samkeppniseftirlitið bregðist við sameiningaráformum N1 og Festi og það skýri lækkun bréfa N1.

Hagar vinna nú að því að koma athugasemdum fram við frummat Samkeppniseftirlitsins á samruna félaganna og eftir atvikum veita eftirlitinu frekari upplýsingar með það að markmiði að ná sátt um samrunann. Málinu getur því enn lokið með setningu skilyrða fyrir samrunanum eða ógildingu hans. 

Kaupsamningurinn er háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, gagnvart öllum framboðnum skilyrðum, og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða eftirlitsins liggur fyrir.