Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,48% í viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1781,2 stigum eftir tæplega milljarðs viðskipti.

Gengi bréfa Haga lækkaði um 7,24% í 181 milljóna króna viðskiptum eftir að félagið sendi frá sér afkomutilkynningu rétt fyrir helgi þar sem kom fram að sölusamdráttur hjá félaginu myndi halda áfram að hafa áhrif á rekstur félagsins.

Þá lækkaði gengi bréfa Sjóvá um 2,45% í 37 milljóna króna viðskiptum og Skeljungs um 2,19% í litlum viðskiptum.

Mest velta var í viðskiptum með bréf Marel sem lækkuðu um 1,34% í 215 milljóna króna viðskiptum.