*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 21. ágúst 2019 18:26

Hagar lækkuðu mest eða um 3,4%

Framan af degi lækkaði VÍS og Sjóvá mest, en Hagar fóru fram úr undir lok dagsins. Sýn heldur áfram að lækka.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,40% í viðskiptum dagsins, sem námu í heildina 1,1 milljarði og endaði hún í 1.993,92 stigum. Er það eilítið meiri lækkun en var fyrr í dag eins og Viðskiptablaðið sagði frá.

Öfugt við VÍS þá endaði lækkun Haga á því að vera sú mesta í dag, eða 3,41% í 160 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin niður í 39,60 krónur. Eru það jafnframt mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag.

Lækkun VÍS nam 3,04% í 94 milljóna viðskiptum og nam lokagengið 11,80 krónum, en eins og kom fram eftir lok viðskipta í dag fjórfaldaðist hagnaður félagsins milli ára á öðrum ársfjórðungi.

Þriðja mesta lækkunin var á bréfum Sjóvá, eða um 2,91%, niður í 16,70 krónur, í 81 milljóna króna viðskiptum. Loks lækkaði Sýn um 2,86% í 126 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi bréfa félagsins 28,90 krónur. Félagið sendi frá sér afkomuviðvörun um lægri horfur fyrir árið í gær, og lækkaði gengi bréfa félagsins þá töluvert.

Gengi bréfa Heimavalla hækkuðu mest, eða um 0,85% í þó mjög litlum viðskiptum og fór gengi bréfanna í 1,18 krónur. Næst mest hækkun var hins vegar á gengi bréfa Arion banka, eða um 0,80% í 42 milljóna króna viðskiptum.

Stikkorð: Hagar Sjóvá Arion VÍS Heimavellir