Hagar sendu upphaflega frá sér samrunatilkynningu vegna samruna Haga og Olís þann 8. mars síðastliðinn, en hún var síðan dregin til baka. Ný tilkynning var svo send 28. mars með uppfærðum tillögum að skilyrðum, en þau taldi samkeppniseftirlitið ekki nægja til að leysa úr þeim samkeppnislegu vandamálum sem samruninn hefði í för með sér.

Nú hafa Hagar lagt fram uppfærða tillögu, sem unnin var í samráði við samkeppniseftirlitið, en meginmarkmið skilyrðanna eru eftirfarandi:

  • Að auka aðgengi að heildsölu og birðarými eldsneytis
  • Að efla samkeppni milli aðila sem selja dagvörur í smásölu
  • Að vinna gegn skaðlegum áhrifum af sameiginlegu eignarhaldi á fyrirtækjum á mörkuðum málsins

Hagar skuldbinda sig til að mismuna ekki samkeppnisaðilum í smásölu eldsneytis þegar þeir selja þeim eldsneyti í heildsölu, og skulu í því sambandi tilnefna sérstakan tengilið sem annast heildsölu til samkeppnisaðila og takmarkar upplýsingagjöf um kjör þeirra til stjórnenda og annarra starfsmanna Haga.

Þá munu Hagar selja frá sér fasteign Haga (Bónuss) að Faxafeni 14, Reykjavík, verslanir Bónuss að Hallveigarstíg 1, Reykjavík og Smiðjuvegi 2, Kópavogi, þjónustustöðvar Olís í Hamraborg 12, Kópavogi og Háaleitisbraut 12, Reykjavík og ÓB stöð við Starengi 2, Reykjavík, auk þurrvöruhluta verslunar Olís í Stykkishólmi.