Miðað við nýbirt uppgjör Haga skilaði félagið eigendum sínum 43% ávöxtun á ársgrundvelli og horfur í rekstrinum virðast vera góðar. Rekstrahagnaður (EBITDA) félagsins gæti verið um 4,4 milljarðar á ári og miðað við hlutfall nettóskulda og EBITDA er félagið skuldlétt. Í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu segir að allt bendi til þess að nýir eigendur hafi gert nánast reyfarakaup í Högum. Stærstu eigendur Haga eru Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, sem á 64% hlut, og Búvellir með 44% eftir að félagið nýtti sér 10% kauprétt sinn. Stærstu eigendur Búvalla eru Hagamelur og svo nokkrir lífeyrissjóðir. Hagamelur er í eigu Hallbjörns Karlssonar, Árna Haukssonar, Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar.

Búvellir keyptu 34% hlut í Högum í febrúar fyrir 4,1 milljarð króna þannig að Hagar voru þá metnir á tæpa 12,4 milljarða króna. Miðað við uppgjör Haga má ætla að árlegur hagnaður félagsins gæti numið 2-2,1 miljarði króna eftir skatta og samkvæmt því var markaðsvirði á móti hagnaði, þ.e. V/H hlutfall, nálægt 6. Nú er engum íslenskum félögum til að dreifa til samanburðar en miðað við lauslega athugun er algengt að þetta hlutfall sé á bilinu 12-18 hjá skráðum fyrirtækjum í smásölugeiranum í Bandaríkjunum. „Rekstur Haga gengur vel og eftir okkar áætlunum. Við erum ánægðir með það og teljum okkar hafa gert góð kaup í Högum.“ segir Árni Hauksson, einn aðaleigenda Hagamels.

Fréttaskýringuna má lesa í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.