Úrvalsvísitalan féll lítillega í 3,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tólf félög aðalmarkaðarins voru rauð í viðskiptum dagsins og þrjú græn.

Smásölufyrirtækin Hagar og Festi leiddu lækkanir. Gengi Haga féll um 2,2% í 82 milljóna veltu og stendur nú í 65,5 krónum á hlut. Hlutabréf Haga voru síðast lægri í byrjun júlí 2022. Þá fór gengi hlutabréfa Festi niður í 175 krónur en það hefur ekki verið lægra síðan í mars 2021.

Síldarvinnslan, Ölgerðin og Icelandair lækkuðu einnig meira en 1% í dag. Gengi Icelandair hélt sér þó í 2,0 krónum á hlut.

VÍS og Arion banki hækkuðu bæði um meira en 1%. Gengi VÍS hækkaði um 1,7% í 260 milljóna veltu og stendur nú i 18,3 krónum eftir 8,3% hækkun í ár.