*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 28. maí 2021 16:55

Hagar og Festi leiða lækkanir

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,8% í dag en sautján af nítján félögum Kauphallarinnar voru rauð.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,8% í 4,6 milljarða veltu í Kauphöllinni í dag. Sautján af nítján félögum hlutabréfamarkaðarins lækkuðu í dag en engin viðskipti voru með hlutabréf Origo og Skeljungs. 

Smásölufyrirtækin Hagar og Festi lækkuðu mest eða um 2,5%-2,6%. Gengi Haga hefur nú lækkað um 4,4 % og Festi um 4% frá því á þriðjudaginn síðasta þegar hlutabréfaverð beggja félaga náðu sínum hæstu hæðum frá skráningu. Fasteignafélögin þrjú, Eik, Reitir og Reginn, fylgdu þeim á eftir í 1,9%-2,3% lækkun.

Mesta veltan var með hlutabréf Símans sem lækkuðu um 1,6% í 1,2 milljarða króna viðskiptum. Næsta mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka sem byrjaði daginn í grænu en gengi bankans endaði daginn í 0,9% lækkun. Kvika birti í gær, eftir lokun markaða, fyrsta uppgjörið eftir að bankinn sameinaðist TM og Lykli fyrr í ár en hið sameinaða félag hagnaðist um 2,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi

Síldarvinnslan lækkaði um 0,6% í 315 milljóna króna veltu á öðrum viðskiptadegi með hlutabréf félagsins. Gengi sjávarútvegsfélagsins stóð í 64,8 krónum á hlut við lokun markaða í dag og er ennþá um 8% hærra en útboðsgengið í hlutafjárútboðinu sem fór fram 10.-12. maí síðastliðinn.