Gengi bréfa bæði Haga og Heimavalla hækkaði um 16,8% í janúarmánuði en alls hækkaði gengi níu félaga á aðallista Kauphallarinnar á meðan gengi ellefu þeirra lækkaði. Fyrir utan félögin tvö varð mest hækkun á bréfum VÍS eða 10,45 auk þess sem bréf Skeljungs hækkuðu um 9%.

Mest lækkun varð hins vegar á bréfum Eimskips eða 10,3% en bréfin lækkuðu meðal annars um 4,76% í dag eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun í gærkvöldi þar sem fram kom að EBITDA fjórða ársfjórðungs hafi verið undir væntingum. Þá varð næst mestu lækkun á bréfum Marel eða 5% en bréf félagsins lækkuðu töluvert um miðjan mánuðinn eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun þar sem fram kom að tekjuvöxtur og rekstarhagnaður hafi verið undir væntingum.

Úrvalsvísitalan, OMXI10 lækkaði um 2,5% í mánuðinum og stendur nú 2.067,6 stigum. Í lok mánaðarins nam heildarvirði allra félaganna á aðalmarkaði Kauphallarinnar 1.192,7 milljörðum króna og lækkaði um 18,3 milljarða frá byrjun ársins eða um 1,5%. Marel er sem fyrr langverðmætasta félagið á markaðnum en markaðsvirði þess nemur nú um 449,5 milljörðum króna eftir að hafa lækkað um 23,9 milljarða í mánuðinum en markaðsvirði félagsins stendur nú undir 37,7% af markaðsvirði allra félaganna á aðalmarkaði. Næst verðmætasta félagið á markaðnum er svo Arion banki en markaðsvirði bankans nemur nú um 149,3 milljörðum króna eftir 7,3 milljarða lækkun.

Sé lækkun á markaðsvirði Marel og Arion banka tekinn út fyrir sviga hækkaði markaðsvirði annarra félaga á markaðnum um 12,8 milljarða.

Krafan lækkaði töluvert

Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðrar ríkisskuldabréfa lækkaði töluvert í mánuðinum sem leið. Krafa óverðtryggðra bréfa lækkaði um á bilinu 0,26 til 0,3 prósentustig þar sem mest lækkun var á bréfum á gjalddaga 2031 en minnst á bréfum á gjalddaga 2022.

Ávöxtunarkrafa á verðtryggðum bréfum á gjalddaga 2026 og 2030 lækkaði um 0,24 prósentustig í mánuðum en um 0,09 prósentustig á bréfum á gjalddaga 2033 á meðan krafa á bréfum á gjalddaga 2021 stóð í stað.