Fataverslun á Íslandi er að mestu leyti á höndum fárra fyrirtækja og einkennist af fáum stórum aðilum. Stærsta einstaka félagið er NTC. Mesta veltan er innan fyrirtækja í eigu Haga en fataverslanir Haga eru í þremur mismunandi félögum. Velta V.M. ehf. sem rekur m.a. verslanirnar Vero Moda og Jack & Jones er ekki gefin upp í birtum ársreikningum en hagnaður á síðasta ári var 160 milljónir þannig að ætla má að V.M. sé þriðja stærsta verslunarkeðjan hér á landi.

Alþjóðlegar fatakeðjur virðast vera árangursríkasta viðskiptamódelið hér á landi því allar stærstu búðirnar eru erlend vörumerki fyrir utan hluta af verslunum NTC eins og Sautján og Eva.

Hagar stærstir

Hagar eru stærstir í sölu á fatnaði hér á landi en salan í fyrra í verslunum Zöru, Debenhams og öðrum verslunum Sólhafnar nam 2,6 milljörðum króna. Þá er ekki meðtalin sala fatnaðar í öðrum verslunum Haga á borð við Hagkaup en bæði í Smáralind, Skeifunni og Kringlunni er fataverslun stór hluti af heildarveltu verslananna.

Ársreikningur fyrir árið 2010 liggur ekki fyrir hjá NTC en árið 2009 var veltan rúmlega 2,1 milljarður.

Hagar og NTC eru því tveir stóru aðilarnir á fatamarkaðinum en velta annarra verslanakeðja er töluvert minni. Velta 18 milljörðum Sala á fatnaði velti tæpum 18 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt Hagstofu Íslands en það er tvöföldun á veltu frá árinu 2002. Heildarvelta á fatamarkaði hefur dregist saman allt frá árinu 2008 ef tekið er tillit til verðbólgu og var samdrátturinn mestur milli áranna 2010 og 2011 eða 14% ef miðað er við sölu í september.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.