Hagar hafa selt lyfjaverslunina Reykjavíkur Apótek. Lyfjafræðingurinn Ólafur Adolfsson kaupir aftur 90% hlut í lyfjaversluninni Reykjavíkur Apótek við Seljaveg sem hann seldi til Haga árið 2019. Lyfjaverslun Reykjavíkur Apóteks í Skeifunni verður seld til Lyfju, með fyrirvara um afstöðu Samkeppniseftirlitsins.

„Sala Reykjavíkur Apóteks er í samræmi við stefnu Haga um að einbeita sér að kjarnastarfsemi á dagvöru- og eldsneytismarkaði. Við óskum Ólafi Adolfssyni alls hins besta með kaupin og þökkum starfsfólki Reykjavíkur Apóteks fyrir gott samstarf og óskum þeim velfarnaðar,“  segir Finnur Oddsson , forstjóri Haga, í fréttatilkynningu.

Í mars 2019 keyptu Hagar 90% hlut í Reykjavíkur Apóteki með það að markmiði að opna fleiri lyfjaverslanir undir vörumerki apóteksins. Tæpu ári síðar, í febrúar 2020, opnuðu Hagar svo nýja verslun undir merkjum Reykjavíkur Apóteks í Skeifunni. Í október sama ár ákváðu Hagar hins vegar að hætta rekstri lyfjaverslana og einbeita sér að kjarnarekstri og voru verslanir Reykjavíkur Apóteks í Skeifunni og við Seljaveg settar í söluferli. Því söluferli er nú lokið og er niðurstaðan sú að vörumerki Reykjavíkur Apóteks og rekstur verslunarinnar við Seljaveg eru keypt aftur af Ólafi.

Hann segir að samkeppnin sé hörð á smásölumarkaði lyfja en kveðst þó mjög ánægður með kaupin. „Þetta hefur verið lærdómsríkt ferli og ég hef notið samstarfsins með Högum en hlakka þó til að einbeita mér aftur að kjarnastarfseminni hér á Seljaveginum,“ segir Ólafur.

Lyfja kaupir lyfjaverslunina í Skeifunni

Rekstur lyfjaverslunar Reykjavíkur Apóteks í Skeifunni var seldur til Lyfju, en þau kaup eru háð samþykki Samkeppniseftirlitinu. Lyfja mun taka yfir réttindi starfsmanna og mun til framtíðar styðja við áframhaldandi uppbyggingu apóteksins.

„Við höfum saknað þess að vera með apótek í Skeifunni. Skeifan er eitt mest sótta verslunarsvæði landsins og við höfum trú á því að sú staðsetning henti vel viðskiptavinum.  Við viljum einfalda lífið fyrir okkar viðskiptavini, góðar staðsetningar eru því lykilatriði.  Við hlökkum til að byggja upp öflugt apótek í Skeifunni með reynslumiklu starfsfólki sem við bjóðum innilega velkomið í hópinn,“ er haft eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur , framkvæmdastjóra Lyfju.