Hagnaður Haga á öðrum ársfjórðungi rekstrarársins, þ.e. frá júní til ágúst á þessu ári, nam 1.155 milljónum króna, samanborið við 1.136 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Á fyrri helmingi rekstrarársins nemur hagnaður Haga 2.094 milljónum, en nam 1.973 milljónum á sama tíma í fyrra. Vörusala jókst lítillega í fjórðungnum og nam 19,5 milljörðum króna og framlegð nam 4,7 milljörðum. Hrein fjármagnsgjöld námu á öðrum ársfjórðungi í ár 27 milljónum króna, en námu 87 milljónum í fyrra.

Eigið fé Haga hefur aukist um 922 milljónir frá upphafi rekstrarársins í marsbyrjun og skuldir hafa lækkað um 1.074 milljónir. Það sem af er rekstrarári, þ.e. á tímabilinu mars til ágúst nam vörusala tímabilsins 38.363 milljónum króna, samanborið við 37.794 milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins er 1,5%.

Í tilkynningu til kauphallar segir að Rekstur samstæðunnar á öðrum fjórðungi rekstrarársins 2014/15 sé á áætlun og svipaður og á sama tímabili í fyrra. Nokkuð hafi hægt á söluvexti og gera áætlanir félagsins ráð fyrir sambærilegum vexti á næstu mánuðum, með óbreyttum verðbólguhorfum og stöðugu gengi.

Gert er ráð fyrir að sá árangur sem náðst hefur í lækkun kostnaðarhlutfalla haldi sér en þó sé ljóst að nokkur þrýstingur er á laun og mikil óvissa varðandi komandi kjarasamninga.