Forsvarsmenn Haga hafa tilkynnt stjórnendum Skeljungs að fyrirtækið telji sig ekki skuldbundið af því að greiða skaðabætur vegna samráðs olíufélaganna, sem stóð yfir á árunum 1996 til 2001. Hagar áttu Skeljung í eitt ár, frá 1. mars 2005 til 1. mars 2006, þegar félagið var selt til Uppsprettu, félags Pálma Haraldssonar.

Við þá sölu var gerður samningur sem í fólst því að Hagar myndu taka á sig alla bótaábyrgð vegna samráðsins sem myndi lenda á Skeljungi. Í ársreikningi Skeljungs fyrir árið 2009 kemur fram að Hagar telji sig ekki lengur skuldbundið af þessu samkomulagi eftir að hlutabréf í Uppsprettu komust í hendurnar á Glitni banka á árinu 2008. Skeljungur hafnar þessum skilningi og telur hann í andstöðu við upphaflega samninginn.