Tap Haga á tímabilinu 1. mars til 31. ágúst nam 1.409 milljónum króna, að því er fram kemu í tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands. Innan vébanda Haga eru Bónus, Hagkaup, 10-11, Aðföng, Hýsing, Útilíf, Debenhams, Ferskar kjötvörur, Noron (Zara), Íshöfn og Bananar. Hlutdeildarfélög eru Max og SMS p/f. Stöðugildi hjá Högum eru 1550.

Í tilkynningu Haga segir m.a.:

„Árshlutareikningur félagsins hefur að geyma samandreginn samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess.  Hann var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins 31. október 2008.  Árshlutareikningur félagsins er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).

Lykiltölur í millj. kr. - samstæða

Tap tímabilsins 1. mars til 31. ágúst 2008 nam 1.409 millj. kr. en hagnaður yrir sama tímabil árið áður nam 715 millj. kr.

Rekstrartekjur tímabilsins 1. mars til 31. ágúst 2008 námu 29.351 millj. kr. en námu 25.474 millj. kr. fyrir sama tímabil árið áður.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 28.579 millj. kr. en námu 27.995 millj. kr. í febrúarlok 2008.

Eigið fé félagsins í lok tímabilsins nam 6.687 millj. kr. en nam 8.808 millj. kr. í febrúarlok 2008.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 23,4%.”

Um stöðu og horfur segir í tilkynningunni: „Mikil óvissa ríkir um vöruöflun verslunarfyrirtækja á Íslandi í dag, þ.m.t. aðföng til verslana Haga.  Gjaldeyrir er af skornum skammti, auk þess sem almenn milliríkjaviðskipti og greiðsluflæði á milli landa er í ólestri.  Viðskiptasambönd Haga hafa beðið hnekki sökum efnahagsástands hér á landi undanfarnar vikur.  Félagið vinnur nú að samningum um vörukaup, m.a. í gegnum verslunarfyrirtæki Baugs erlendis.  Félagið mun leggja höfuðáherslu að tryggja viðskiptavinum sínum matvörur og aðrar nauðsynjavörur og koma þar með í veg fyrir vöruskort.  Óstöðugleiki íslensku krónunnar og mikil verðbólga hefur mikil neikvæð áhrif á rekstur Haga.”