Stjórn Haga hefur ákveðið að höfða dómsmál gegn Arion banka í kjölfar þess að fyrirtækjasvið KPMG komst að þeirri niðurstöðu miðað við gengislánadóm Hæstaréttar í febrúar að félagið eigi 824 milljónir króna inni hjá bankanum. Hagar fengu skömmu eftir skráningu félagsins á markað í desember endurgreiddar tæpar 515 milljónir króna frá Arion banka vegna endurútreiknings á erlendum lánum félagsins.

Í tilkynningu frá Högum kemur fram að stjórn félagsins hafi fengið lögfræðiálit á stöðu sinni vegna gengistryggðra lána félagsins hjá Arion banka, áður Kaupþingi Búnaðarbanka, sem greidd voru upp í október árið 2009. Niðurstaða álitsins gefur til kynna að Hagar eigi enn frekari kröfu á hendur bankannaum.

Arion banki hafði tilkynnt stjórninni bréfleiðis að bankinn telji dóm Hæstaréttar hafa takmarkað fordæmisgildi og telji því að Hagar eigi ekki rétt til frekari endurútreiknings lána.

Með dómsmáli á hendur Arion banka vill stjórn Haga fá skorið úr um réttmæti kröfunnar enda er ljóst að um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða.

Ekki hefur náðst í Árna Hauksson, stjórnarformann Haga, vegna málsins.