Hagdeild ASÍ spáir umtalsverðum hagvexti á árunum 2014-2016 sem drifinn verður áfram af kröftugum vexti þjóðarútgjalda. Er áætlað að verg landsframleiðsla aukist um 3,1% á þessu ári og hagvöxtur muni vera þar um kring út spátímann, 3,3% á næsta ári og 3,5% árið 2016.

Í hagspá ASÍ segir að horfur í íslensku efnahagslífi séu bjartari en um langt árabil. Fjárhagsleg staða heimila hafi batnað og lagt grunn að umtalsverðum vexti einkaneyslu á þessu ári. Þá fari skuldir heimilanna lækkandi, kaupmáttur launa vaxandi, væntingar hafi aukist og dregið hafi úr efnahagslegri óvissu. Segir að þetta, auk skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda og skattkerfisbreytinga, muni ýta undir töluverðan vöxt einkaneyslunnar á tímabilinu, eða um 3,7% ár ári að jafnaði.

Í spánni segir jafnframt að viðsnúningur verði í fjárfestingu á þessu ári eftir samdrátt síðasta árs og útlit sé fyrir 15,5% vöxt fjárfestinga á árinu. Gangi spáin eftir verði fjárfesting nærri sögulegu meðaltali í lok spátímans og hlutfall vergrar landsframleiðslu yrði þá tæplega 21%.

Hagdeild ASÍ bendir þó á að hætta sé á að tímabil verðstöðugleika taki enda á næsta ári þegar þensluhvetjandi aðgerðir stjórnvalda og vöxtur innlendrar eftirspurnar ýti undir hækkun verðlags. Verðbólga á þessu ári verði 2,3% en fari vaxandi eftir það og verði að jafnaði 3,1% á ári út spátímann.