Diplómanám í hagfræði við Háskóla Íslands er 60 eininga nám á framhaldsstigi sem sniðið er að bakgrunni og þörfum einstakra nemenda. Námið á jöfnum höndum að nýtast nemendum sem lokið hafa BS eða BA prófi með fyrstu einkunn (7,25) og vilja kynna sér hagfræði eða hyggja á meistaranám í greininni en hafa ekki grunn til að hefja námið.

Ekki eru gerðar sömu forkröfur til inntöku í diplómanáminu eins og í meistaranámi í hagfræði hvað tæknilega kunnáttu varð­ ar, en nemendur sem skortir slíka undirstöðu geta byggt hana upp á fyrstu önn námsins með því að taka nauðsynleg grunnnámskeið í stærðfræði og tölfræði. Einnig gerir námið ráð fyrir því að nemendur taki grunnnámskeið í þjóðhagfræði og rekstrarhagfræði á fyrstu önn, hafi þeir ekki nauðsynlegan grunn þar í upphafi náms.

Hafi nemendur hins vegar nægilegan grunn í stærðfræði, tölfræði og hagfræði við inntöku geta þeir valið námskeið úr meistaranámi strax á fyrstu önn. Námskeiðavalið er fjölbreytt og geta nemendur valið milli hefðbundinna hagfræðinámskeiða og námskeiða í fjármálum og fjármálahagfræði.

Diplóma sem lýkur með fyrstu einkunn veitir aðgang að meistaranámi í hagfræði við háskólann, sem er 90 einingar, óháð því hvort viðkomandi hafi lokið grunnnámi í hagfræði eða sambærilegu námi. Meistaranámskeiðin í diplómanáminu fást metin í meistaranáminu, en hið sama gildir þó ekki fyrir grunnnámskeið námsins. Námið er þannig um margt líkt meistaranámi við hagfræðideild, þó svo að áherslurnar séu að einhverju leyti hagnýtari og síður fræðilegar.

Sveigjanlegur valkostur

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ og deildarforseti hagfræðideildar, segir diplómanámið höfða til breiðs hóps af fólki og geri hagfræðideildina aðgengilegri fyrir nemendur.

„Fólk ákveður að kynna sér hagfræði út frá mismunandi forsendum og diplómanámið kemur til móts við það. Námið nýtist þeim sem vilja öðlast skilning á hagfræði eða fjármálahagfræði og hvernig markaðir virka. Þetta getur verið fólk sem vill skilja hagkerfið og hagfræðilega umræðu betur, eða þeir sem sjá hag sinn í því að nýta þekkinguna í atvinnulífinu. Námið er aðeins byggt upp af námskeiðum og lýkur ekki með lokaritgerð.

Diplómanámið er þannig að einhverju leyti hagnýtara og síður fræðilegra nám heldur en meistaranám, þó það sé um margt líkt því. Svo er hægt að líta á námið sem dyragátt inn í meistaranámið,“ segir Ásgeir, sem vill leggja aukna áherslu á þennan sveigjanlega námsvalkost.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .