Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, telur hagfræðina standa vel að vígi sem fræðigrein. Hann telur hagfræðiþekkingu koma sér vel fyrir þá sem standa í rekstri fyrirtækja og segist ekki viðkvæmur fyrir gagnrýni á greinina.

Hagfræðin hefur gjarna það orðspor að vera þurr grein. Er krefjandi að sannfæra ungt fólk um að hagfræði sé góð og áhugaverð námsleið?

„Eins og hagfræðin er alla jafna kennd þá eru gerðar tiltölulega miklar tæknilegar kröfur. Raunar er það svo að nemendur hafa þurft að tileinka sér töluverða tæknifærni áður en þeir hafa verið leiddir um leyndarsali greinarinnar. Slík tækni liggur misvel fyrir fólki og þarfnast ávallt töluverðrar ástundunar. Það hefur oft fælt nemendur frá.

Auðvitað geta tæknileg fög verið þurr, en það er þó algengt að fólk sjái eftir því að hafa valið of mjúka leið í gegnum háskólann eftir starfsferillinn er kominn áleiðis og hafi því ekki tileinkað sér meiri tæknilega færni meðan á námi stóð. Þannig er að þó maður geti lært mikið sjálfur í starfi og víðar er mjög erfitt að tileinka sér tækni á borð við stærðfræði og tölfræði sjálfur.

Ég hef einnig orðið mjög var við það að fólk sem hefur menntað sig í öðru sviði fær oft mikinn áhuga á hagfræði þegar það er komið til þroska og langar til þess skilja þau öfl sem ráða mörkuðum og efnahagslífi. Ég hitti mjög oft fólk sem er í forsvari fyrir fyrirtæki eða stendur fyrir rekstri og hefur lagt sig töluvert eftir því að kynna sér hagfræði þar sem það hefur áttað sig á því að afkoman veltur mikið á þjóðhagslegum þáttum á borð við gengi, vexti, verðbólgu og annað.“

Hagfræðin er gjarna gagnrýnd af fræðimönnum annarra sviða. Á sú gagnrýni rétt á sér?

„Eðlilega verður greinin fyrir gagnrýni, sérstaklega þar sem margar forsendur hennar, eins og hvernig markaðir eru notaðir og skipta máli, ganga gegn hugsunarhætti og pólitískum skoðunum mjög margra. Það sem við hagfræðingar teljum vera staðreyndir sem þarf ekki einu sinni að ræða, eins og að markaðir henti best til að skipuleggja framleiðslu og deila gæðum og svo framvegis, er alls ekki skoðun sem tíðkast í öðrum fræðasviðum og gengur jafnframt gegn pólitískum lífsskoðunum margra.

Það er því mjög algengt að við fáum þá gagnrýni frá öðrum í félagsvísindum að við séum með allt of þrönga sýn á þjóðfélagið og þess háttar. Svo er mjög algengt að við fáum þá gagnrýni frá raunvísindafólki að þetta séu ekki raunveruleg fræði sem væri hægt að stunda með einföldum útreikningum aftan á umslagi, en yfirleitt er það misskilningur líka.

Hagfræðingar eru yfirhöfuð ekki viðkvæmir fyrir þessari gagnrýni – enda sjálfsmynd greinarinnar alls ekki veik. Og í raun þveröfugt – við erum stundum gagnrýnd fyrir hroka. Það er hins vegar allt í lagi að fagið sé gagnrýnt, enda er það bara hollt og eðlilegt.“

En almenningur virðist heldur ekki hafa trú á greininni?

„Almennt séð hefur vantraust á sérfræðinga yfirhöfuð farið vaxandi á undanförnum árum, bæði hérlendis og erlendis. Það skýrist m.a. af því að margt venjulegt fólk finnur til ákveðins vanmáttar gagnvart straumum og stefnum í efnahagslífinu og finnst það vera öryggislaust. Þá eru hagfræðingar ávallt þyrnar í augum popúlista sem lofa skyndilausnum sem oftar en ekki ganga gegn markaðslögmálum.

Það er mín skoðun að hagfræðistéttin hafi almennt séð týnt sér aðeins of mikið í tækni og lokað sig of mikið af. Við erum of mikið að tala við hvert annað og við mættum leggja miklu meira á okkur að tjá okkur út á við með skiljanlegum hætti og taka þátt í þjóðfélagsumræðunni.

Svo finnst mér að það mætti kenna mun meiri hagfræði í bæði gagnfræðiskóla og menntaskóla hérlendis. Það er mjög undarlegt að fólk læri ekki að minnsta kosti einfalda heimilishagfræði til þess að geta skilið lánin sín og svo framvegis.“

Hagfræðin gæti tekið breytingum

Hefur hagfræðin þurft að kljást við ímyndarvanda eftir fjármálakreppuna sem hófst eftir 2007?

„Það er rétt að sumu leyti. Hagfræðistéttin var í heild sinni gagnrýnd fyrir að hafa ekki spáð fyrir um krísuna og að hafa flotið sofandi að feigðarósi. Það er að einhverju leyti réttmæt gagnrýni. Samt sem áður hefur vegur hagfræðinnar vaxið verulega jafnt og þétt undanfarna áratugi, bæði á Íslandi og erlendis og fjármálakrísan varð frekar til þess að auka áhuga á greininni – sem meðal annars sést á því að hagfræði varð eitt vinsælasta valfagið í bandarískum háskólum eftir 2008.“

Heldurðu að hagfræðin komi til með að breytast mikið á næstu árum og áratugum?

„Ég held það. Helsta framþróunin á síðustu 20-30 árum hefur verið í rekstrarhagfræði eða „micro“ hagfræði, þar sem hefur skapast samlegð við önnur fög. Aftur á móti hafa fremur takmarkaðar framfarir átt sér stað í þjóðhagfræði, eða „macro“ hagfræði, á sama tíma.

Það myndi þó ekki koma mér mikið á óvart að þjóðhagsþróun síðustu ára yrði hvati að einhverri byltingu í þeim greinum þegar fram í sækir. Hvað varðar aðrar breytingar innan greinarinnar sjálfrar þá hefur kenningaleg hagfræði verið heldur að fara úr tísku en áherslan hefur verið að færast að gagnagreiningu. Stór hluti af fræðilegum pappírum sem eru birtir núna er einhvers konar tölfræðileg greining á stórum gagnamengjum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .