Tveir af hverjum þremur hagfræðingum telja Grikkland líklegt til að verða gjaldþrota vegna skulda hins opinbera, samkvæmt  könnun sem gerð var fyrir BBC. Alls voru 52 hagfræðingar spurðir álits og 38 svöruðu.

Grikkland var fyrst evruríkja til að óska eftir aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu vegna bágrar fjárhagsstöðu. Írar fylgdu í kjölfarið og nú er horft til Portúgals.

Í frétt BBC segir að þeir hagfræðingar sem spurðir voru séu allir sérfræðingar í málefnum evrusvæðisins og taka allir þátt í skoðanakönnun Evrópska seðlabankans sem gerð er á þriggja mánaða fresti. 38 svöruðu spurningum BBC.

Af þeim töldu 25 að eitt ríki muni verða gjaldþrota hið minnsta. Líklegast þykir Grikkland, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Þrátt fyrir að spá  gjaldþroti töldu flestir þeirra að evrusvæðið muni ekki liðast í sundur. 33 af 38 töldu að evran geti staðist þrýsting vegna slæmrar skuldastöðu evruríkja og benti einn þeirra á að kostnaður við að yfirgefa evruna sé einfaldlega of hár.