Tillaga Jóhönnu Sigurðardóttir um að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að meta áhrif krafa Hagsmunasamtaka heimilanna um „afnám verðtryggingar og leiðréttingar á stökkbreyttum lánum til heimilanna“ var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna afhenti forsætisráðherra undirskriftarlista með nöfnum 33.525 einstaklinga þann 1. október síðastliðinn. Með kröfunum fylgja fjórar mismunandi leiðir til leiðréttingar á lánum, sem Hagfræðistofnun mun nú fara yfir. Auk þess að meta áhrif þeirra á þjóðarhag eru áhrif á afkomu og efnahag heimilanna metin, áhrif á lífeyrisþega í nútíð og framtíð, fyrirtækja og fjármálastofnana. Reiknað er með að greinargerð geti legið fyrir í nóvember.