Í tilefni af formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni býður Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til ráðstefnu í samstarfi við ráðherranefndina.

Segir í tilkynningu að ágreiningur sé venja fremur en undantekning við fiskveiðistjórnun og sérstaklega milli ólíkra aðila eins og útgerða og útgerðarsamtaka, rannsóknarstofnana og stjórnvalda. Reynsla annarra þjóða geti varpað ljósi á hvernig samvinna getur verið styrkt og ágreiningur leystur eða hið minnsta lágmarkaður.

Ráðstefnan verður í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum verður fjallað um hina hagrænu hlið samvinnu og ágreinings innan sjávarútvegs, en í hinum seinni verður fjallað um tæknileg úrlausnarefni. Ráðstefnan er skipulögð í samvinnu við Íslensku sjávarútvegssýninguna 2014.

Fyrirlesarar verða Sverre Johansen, framkvæmdastjóri iðnaðar hjá Norska sjávarútvegssambandinu, Roger Martini frá OECD, Þorsteinn Hilmarsson, sviðsstjóri upplýsingasviðs Fiskistofu og Sigurjón Arason, prófessor við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur Matís.

Ráðstefnan fer fram föstudaginn 26. september frá kl. 13 til 17:45 í Smáranum, Dalsmára 5 í Kópavogi.