Jónas Fr. Jónsson., forstjóri Fjármálaeftirlitsins, kom fyrir skömmu til Ráðherrabústaðarins, þar sem  Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Þogerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson. heilbrigðisráðherra, sitja á fundi, auk hagfræðinganna Jóns Steinssonar, Tryggva Þórs Herbertssonar og Friðriks Más Baldurssonar.

Eftir að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, yfirgáfu Ráðherrabústaðinn, skömmu eftir hádegi, hafa forystumenn í Sjálfstæðisflokknum fundað í Ráðherrabústaðnum.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra yfirgaf húsið skömmu á eftir ráðherrum Samfylkingarinnar, og síðar hafa Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, yfirgefið husið.

Ekkert þeirra hefur viljað ræða við fjölmiðla.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er talið að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi kallað flokksmenn sína saman til að tryggja sér umboð fyrir ákveðnum þáttum þeirra aðgerða sem nú eru á borði ríkisstjórnarinnar.

Viðkvæmur þáttur þeirra aðgerða er að Lífeyrissjóðirnir og bankarnir vilja tryggingar gegn því að flytja heim hluta erlendra eigna sinna. Verkalýðshreyfingin hefur sem kunnugt er lýst því yfir að hún telji að stöðugleiki náist ekki án breytinga í gjaldmiðilsmálum.

Auk þess að lífeyrissjóðir og bankarnir flytji heim eignir er um það rætt aðríksistjórnin og Seðlabankinn nýti nú heimildir sínar og samninga sem gerðir hafa verið við aðra seðlabanka um að þræða á lánalínur og taka erlent lán til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn.

Í breska blaðinu Daily Telegraph segir að talið sé að dæla þurfi 1.600 milljörðum króna inn í íslenska hagkerfið til þess að standa af sér þennan efnahagslega storm.