Miðgildi heildarlaunatekna viðskipta- og hagfræðinga í febrúar 2005 var 460 þúsund kr. Heildarlaun hafa hækkað um 5,75% frá 2003, eða um tæp 3% á ári. Hækkun á miðgildi launa er mun minni nú en fyrir tveimur árum þegar laun höfðu hækkað um 13,9% og fyrir fjórum árum þegar laun höfðu hækkað um rúm 19% á tveggja ára tímabili. Meðaltal heildarmánaðarlauna viðskipta- og hagfræðinga er tæplega 519 þúsund kr. nú en var rúmlega 475 þúsund kr. árið 2003.

Þetta kemur fram í kjarakönnun sem IMG Gallup framkvæmdi fyrir Félag viðskipta- og hagfræðinga. Könnunin er gerð í samstarfi við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur (VR) og Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga (KVH könnunina. Niðurstöðurnar byggja á 1.072 svörum en félagið hefur gert kjarakönnun reglulega frá árinu 1979.

Laun kvenna hafa hækkað örlítið meira frá árinu 2003 en karla. Heildarlaun kvenna hækka um 10,8% en karla um 10% milli mælinga. Þegar ekki er tekið tillit til annarra þátta virðist launamunur kynjanna nú örlítið minni en fyrir tveimur árum. Karlar hafa tæplega 29,6% hærri heildarlaun en konur samanborið við tæplega 30,6% launamun árið 2003 og 21,6% árið 2001. En þegar launamunurinn hefur verið leiðréttur miðað við fjölda vinnustunda á viku er hann 21,5% en var 17% í kjarakönnun FVH 2003 og tæplega 15% árið 2001. Þegar launamunur kynjanna er svo leiðréttur með tilliti til fleirri þátta eins og menntunar, starfs, atvinnugreinar, aldurs, vinnuframlags, mannaforráðs og starfsaldurs kemur í ljós að kynbundinn launamunur hjá viðskipta- og hagfræðingum er nú 7,6% en var 6,8% árið 2003.