Henný Hinz hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands segir hækkun verðbólgu nú í 12,5% vera mikil vonbrigði. Hún skýrist að stærstum hluta af lækkun gengis krónunnar og gjalda- og skattahækkunum ríkisstjórnarinnar í maí. Samt eigi hækkun á bensíngjaldi enn eftir að koma inn.

„Þetta er meiri hækkun vísitölunnar en maður hefði búist við. Þarna er að koma inn hluti af gjalda og skattabreytingunni í lok maí. Þarna er áfengis og tóbaksgjaldið að koma inn að fullu og hækkun vörugjalds á dísilolíu gerir 0,4% af 1,38% frá fyrra mánuði. Svo á eftir að koma 0,2% áhrif af hækkun á bensíngjaldi.”

Segir Henný að af hækkun vísitölunnar í júní er um 0,4% opinber gjöld og gengið skýrir mikið af hinu auk hækkunar bæði á innlendum og erlendum matvælum. Í fyrirliggjandi tillögum ríkisstjórnarinnar sé auk þess gert ráð fyrir hækkun á virðisaukaskatti á sykri og sætindum sem kom inn í september. Telur hún að það muni að öllum líkindum leiða til 0,3% hækkunar vísitölunnar.

Varðandi áhrif húsnæðisverðs til lækkunar á vísitölunni sé erfitt að átta sig á hvað sé raunverulega að gerast á þeim markaði vegna lítilla viðskipta.

„Við höfðum gert ráð fyrir hraðri hjöðnun þegar líða tæki á árið. Ef ekki hyllir undir bata í gengismálum, þá óttast maður að það hafi þau áhrif að verðbólgan fari ekki eins hratt niður og maður hefði vonast til.” Hún segir áhrifin auðvitað verða slæm fyrir kaupmátt launþega sem og skuldir heimilanna.