Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir þau rök þeirra sem vilja halda í íslensku krónuna að hagsveiflur á Íslandi séu ekki í takti við hagsveiflur annarra landa ekki eiga við í dag.

„Í sögulegu samhengi hefur hagsveifla á Íslandi verið úr takti við hina evrópsku. Ástæðan er aðallega sú að rætur hagsveiflna á Íslandi mátti einkum rekja til sjávarútvegs, annaðhvort vegna aflabrests eða verðlags á sjávarafurðum. Hagkerfið hefur gerbreyst á rúmum áratug og enginn fótur er lengur fyrir þessum rökum. Áður fyrr byggðist útflutningur fyrst á fremst á sjávarútvegi en nú hvílir útflutningur einnig á stóriðju, margvíslegri þjónustu á sviði samgangna, fjármála og hátækni. Eftir því sem fjölbreyttari útflutningur knýr hagkerfið áfram þeim mun háðara verður það hagkerfum viðskiptalanda okkar. Fyrir vikið eru líkur á verulegum frávikum í efnahagsbúskap okkar og annarra Evrópulanda minni,“ skrifar Bjarni á vef Samtaka iðnaðarins.

Bjarni segir einnig að upptaka evru og innganga í Evrópusambandið myndi verða til þess að íslenskar hagsveiflur líktust þeim evrópsku æ meir og að heppilegasta fyrirkomulag gengismála á Íslandi sé að taka upp evru.

Pistill Bjarna.