Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir að forsenda þess að halda stýrivöxtum háum sé hæpin. "Það er augljóst mál að vöxtum er ekki ætlað að hafa áhrif á eftirspurn í hagkerfinu eins viðgengst í flestum öðrum hagkerfum. Vaxtatækið hér á Íslandi er því óvirkt sem hefðbundið hagstjórnartæki. Því virðist fyrst og fremst ætlað að hafa áhrif á gengið. Lækkandi húsnæðisverð, mikið atvinnuleysi og samdráttur í efnahagslífi ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera tilefni til að keyra niður vextina.

Bjarni segir að áhrif hárra stýrivaxta hafi aftur á móti mjög neikvæð áhrif á fyrirtækin í landinu. Þau hafi nú hvorki aðgang að erlendu fjármagni né getu til að taka innlend lán vegna mikils fjármagnskostnaðar og takmarkaðra veðheimilda. Mörg þessara fyrirtækja eru svo að keppa á erlendum mörkuðum og ljóst er að samkeppnisstaðan á Íslandi sé mun lakari hvað þetta varðar.

Hann telur að því miður séu engar skyndilausnir til og allir geri sér grein fyrir því að Seðlabankinn sé í erfiðri stöðu. „Vandinn snýr auðvitað að krónunni og fyrirkomulagi gengismála. Eitt af þeim skrefum sem gæti varðað leiðina út úr þessum ógöngum er að marka skýra stefnu um að taka upp aðra mynd samhliða inngöngu í Evrópusambandið. Ef það er ekki gert verða háir vextir, mikill vaxtamunur, óstöðugt gengi í skjóli gjaldeyrishafta hlutskipti okkar,“ segir Bjarni Már Gylfason.