Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands ættu að leyfa og flýta fyrir skráningu íslenskra banka og annarra alþjóðavæddra fyrirtækja í erlendri mynt, að mati Friðriks M. Baldurssonar, prófessors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Þetta kom fram í erindi hans um peningastjórnun í vaxtamunarhagkerfi, sem haldið var í málstofu Seðlabanka Íslands í fyrradag.

Friðrik benti á að vegna þess að kaup á íslenskum hlutabréfum væru fjármögnuð í töluverðum mæli í erlendri mynt hefðu hlutabréf og gengi íslensku krónunnar tilhneigingu til að sveiflast samhliða - þegar hlutabréf hækka þá hækkar krónan og öfugt. Þetta væri slæmt fyrir fyrirtækin, drægi úr áhrifum peningastefnunnar og magnaði sveiflur á fjármálamörkuðum.

Hann velti fyrir sér hvort skráning innlendra fyrirtækja, sem starfa þó á alþjóðlegum vettvangi, í evrum í Kauphöll Íslands myndi draga úr þessari skaðlegu fylgni á milli gengis og hlutabréfaverðs, og kvaðst þeirrar skoðunar að líklegt væri að slík skráning drægi úr samspilinu vegna þess að bróðurparturinn af tekjum og gjöldum fyrirtækjanna væri í erlendri mynt.

„Ef fylgnin hyrfi eða snerist við þá væri það gott fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Það væri jákvætt fyrir skráð félög, sem ættu þá auðveldara með að fjármagna sig með hlutafé, það myndi bæta virkni peningastefnunnar og gera fjármálakerfið stöðugra," sagði Friðrik.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .