Íslendingum gæti fækkað um hálft prósent, eða um 1750, á því 15 ára tímabili sem ætlað er til að greiða lán sem tekin yrðu vegna Icesave-ábyrgðar. Þetta er ein af niðurstöðum greinargerðar sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir fjárlaganefnd Alþingis og kynnt var í dag. Hagfræðistofnun var fengin til að rýna gögn fjármálaráðuneytis og Seðlabanka vegna svonefndra Icesave-skuldbindinga.

Hagfræðistofnun gagnrýnir ýmislegt í áliti Seðlabankans og telur til að mynda að Seðlabankinn ofmeti hagvöxt. Þá er bent á að bæði Seðlabanki og fjármálaráðuneyti horfi að miklu leyti framhjá áhrifum sem Icesave-skuldbindingarnar geti haft á hagvöxt. Þannig sé hvorki fjallað um þær afleiðingar sem fólksflutningar til útlanda eða töf á uppbyggingu fjármagnsstofns gætu haft í för með sér fyrir hagvöxt. Ekki sé heldur rakið hvaða áhrif Icesave-skuldbindingarnar gætu haft á áhættuna sem þjóðin taki á sig með Icesave-lánum.

Í niðurstöðum Hagfræðistofnunar segir að mesta hættan liggi í því ef efnahagshremmingarnar verði til þess að fólk flytji úr landi í stórum stíl. Fram kemur að lausleg athugun, byggð á hagsögu síðustu áratuga, bendi til að fólksfjöldinn yrði um hálfu prósenti lægri en ella við lok greiðslutímans. Miðað við þá ætluðu fjölgun sem nefnd er í greinargerðinni yrði mannfjöldinn í lok greiðslutímans rúmlega 350 þúsund og Íslendingum gæti því fækkað um 1750 manns vegna Icesave-ábyrgðarinnar. Greinargerð Hagfræðistofnunar lýkur á þeim orðum að fólksflótti í stórum stíl vegna almennrar ótíðar þyngi skuldabyrðina hjá þeim sem eftir sitji.