Forsvarsmenn Hagkaups hafa ákveðið að hætta þátttöku í verðkönnunum ASÍ eftir árangurslausar athugasemdir um langt skeið við framkvæmd og framsetningu þeirra.  Forsvarsmenn Hagkaups telja verðkannanir samtakanna hafa verið ómarktækar um nokkurra missera skeið því þær mæli ekki markaðinn í heild þar sem fjöldi verslana taki ekki þátt. Það skekki myndina verulega.

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.
Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.

Á meðal þeirra verslana sem ekki taka þátt í verðkönnuninni eru Nótún, Samkaup Úrval, Strax, Þín verslun, Víðir, Kostur, 10-11 og Melabúðin.

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir í tilkynningu:

„Við höfum bent ASÍ á að mælingar samtakanna séu algjörlega ómarktækar þar sem þær eru ekki að mæla markaðinn í heild, heldur nánast eingöngu lágvöruverðsmarkaðinn og þar með villandi fyrir neytendur en okkur er varla svarað, hvað þá að tekið sé tillit til athugasemda okkar.“

Hann segir ennfremur að stjórnendur Hagkaupa viti fullvel að vöruverð í Hagkaupi er mun lægra en hjá fjölda verslana sem ekki taka þátt í verðkönnuninni. Samt slái ASÍ því upp í fyrirsögnum að við séum dýrastir.

„Það getum við aldrei sætt okkur við,“ segir Gunnar Ingi og bætir við að vinnubrögð ASÍ séu slæleg.