Ekki stendur til að loka verslun Hagkaups í Holtagörðum þrátt fyrir að rekstur verslunarinnar sé nokkuð undir væntingum.

Þetta segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurður staðfestir Gunnar Ingi að rekstur verslunarinnar sé nokkuð undir væntingum en hér sé hins vegar um framtíðarfjárfestingu að ræða af hálfu Hagkaupa.

„Þetta er draumafjárfesting, ein flottasta búð í Evrópu,“ segir Gunnar Ingi og þvertekur fyrir að til standi að loka versluninni.

„Þetta eru tæpir 8.000m2 af verslunarhúsnæði og það mun nýtast vel til frambúðar.“

Höfum þurft að hagræða í rekstri

Eins og fram hefur komið í dag hefur Hagkaup ákveðið að hafa verslun sína í Skeifunni áfram opna 24 tíma sólarhringsins.

Aðspurður um almennt gengi Hagkaupa segir Gunnar Ingi að reksturinn gangi vel en vissulega hafi Hagkaup, líkt og önnur fyrirtæki, þurft að taka til í ranni sínum og hagræða í rekstri.

Hann segir að lítið hafi þó verið um uppsagnir starfsmanna og engar hópuppsagnir.

„Á móti kemur að við höfum heldur ekki verið að ráða eins og við hefðum þurft að gera,“ segir Gunnar Ingi og ítrekar að nú stígi allir varlega til jarðar og leiti frekari leiða að hagræðingu.

Hlutfall sérvöru eykst en ekki á kostnað matvöru

Aðspurður um hlutfall á sérvöru og matvöru hjá Hagkaupum segir Gunnar Ingi að hlutfall sérvöru fari vaxandi en þó ekki á kostnað matvörunnar.

Hann segir að Hagkaup bjóði upp á ódýra sérvöru sem sé það sem almenningur leitar að. Þá geri fjölbreytt vöruúrval það að verkum að auðvelt sé að skipta vörum og fá til baka það sem viðkomandi langar í.

Hvað varðar matvöruna segir Gunnar Ingi að neyslumynstur Íslendinga sé að breytast.

„Fólk er farið að gera sér glaðan dag heima fyrir,“ segir Gunnar Ingi.

„Með það í huga getur fólk keypt steikina, krydd og allt annað meðlæti hjá okkur og það er það sem fólk leitar að.“