Eftir helgi munu framkvæmdir við uppsetningu á nýrri verslun Hagkaupa hefjast á neðri hæð Kringlunnar. Stendur því nú yfir rýmingarsala á öllum lagernum í versluninni og er orðið tómlegt um að litast í versluninni að því er Morgunblaðið greinir frá. Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri Hagkaupa segir verslunarrýmið síðast hafa verið endurnýjað árið 1999.

„Við ákváðum að ráðast í framkvæmdir þegar tækifæri gafst og það er engin spurning um að það var kominn tími á að endurnýja," segir Gunnar Ingi.

„Öll baksvæði og vinnslurými eru eins og þau voru við opnun Kringlunnar en það hefur orðið mikil breyting á rekstrarumhverfinu síðan þá. Þessar endurbætur skapa möguleika til að hanna svæði upp á nýtt miða við núverandi umhverfi. Við náum að stækka verslunargólfið um 600 fermetra þannig að allur reksturinn er kominn á eina hæð sem felur í sér gríðarlega hagræðingu.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur verslun Hagkaupa á efri hæð Kringlunnar þegar lokað enda standa nú þar framkvæmdir yfir á fullum þunga til undirbúnings opnunar verslunar H&M í rýminu í haust.

„Svona rekstur gengur út á að selja sem mest á hvern fermetra," segir Gunnar Ingi en verslun Hagkaupa á báðum hæðum var áður um 7.700 fermetrar en eftir breytingar verður hún um 3.600 fermetrar, einungis á neðri hæðinni. „Í þessu breytta samkeppnisumhverfi þurfum við að bregðast við og draga fram sterku hliðarnar.“

Sams konar breytingar í Smáralind juku sölu

Um er að ræða fjárfestingu fyrir hundruð milljóna en stefnan er að opna nýju verslunina 21. október, sem er í kringum 30 ára afmælishátíð Kringlunnar. Gunnar Ingi segir afrakstur af sams konar framkvæmdum í Kringlunni hafa gengið vonum framar, en þar var verslunarrýmið helmingað með minnkun um 4.800 fermetra.

„Við fengum frábærar móttökur í Smáralind. Viðskiptavinum fjölgaði og söluaukning er í tveggja stafa tölu á mun færri fermetrum,“ segir Gunnar Ingi sem segir verslunina verða hlýlegri ásýndum við breytingarnar, ekki jafn hvíta og skæra, en einnig komi til nýtt kaffihús og snyrtivörudeild og svo verður ferskvörudeildin hönnuð þannig að hún minni á markaðstorg, auk veglegs kjötborðs.

Á þess­um markaði erum við ekki bara að keppa í verðum heldur einnig ímynd, upplifun og vöruúrvali. Við gerum út á að vera með vörur sem eru spennandi og öðruvísi en aðrir eru með.“