Það að hafa verslun Hagkaupa í Skeifunni opna allan sólarhringinn veldur ekki hækkun á vörum Hagkaupa, hvorki í Skeifunni né í öðrum verslunum.

Þetta segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa í samtali við Viðskiptablaðið en í gær gagnrýndu Neytendasamtökin verslunarkeðjuna fyrir að opna verslun sína allan sólarhringinn.

Samtökin sögðu á vef sínum, í grein sem ber fyrirsögnina „Opið í 24 tíma - Að kröfu neytenda?“, að kostnaður vegna langs opnunartíma færi út í verðlagið og ekki bara í þeirri verslun sem opin er heldur einnig í öðrum útibúum keðjunnar þar sem vöruverð er það sama í öllum verslunum.

„Það vekur óneitanlega athygli að svo margir flykkjast í verslanir seint um kvöld og að næturlagi að það borgi sig að hafa opið,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

Þessu vísar Gunnar Ingi á bug.

„Það er fráleitt að halda því fram að þetta valdi hækkun á verðlagi. Við hækkum ekki verð vegna þessa, hvorki í Skeifunni né í öðrum verslunum,“ segir Gunnar Ingi.

„Við teljum frekar að við séum að koma til móts við neytendur að bjóða þeim vöru á öllum tíma sólarhringsins.“

Gunnar Ingi segir að það séu fjölmargir sem vinni vaktavinnu og þannig henti þeim betur að versla að kvöld- eða næturlagi.

Hann minnir einnig á að margir þurfi að kaupa gjafir og fleira á kvöldin og eigi því kost á því að kaupa þær í Skeifunni.

Gunnar Ingi ítrekar þó að Hagkaup hafi átt gott samstarf við Neytendasamtökin og því komi gagnrýni samtakanna á óvart. Hins vegar geri hann ráð fyrir góðu samstarfi við samtökin áfram.