Föstudaginn 28. nóvember styrkti Hagkaup Mæðrastyrksnefnd með tveggja milljóna króna framlagi til leikfangakaupa fyrir yngstu kynslóðina.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagkaup.

Þar kemur fram að Hagkaup hefur einsett sér að styðja veglega við nokkur málefni árlega og er þessi stuðningur við gott og þarft starf Mæðrastyrksnefndar liður í því.

„Við skoðuðum málið og töldum að í því erfiða árferði sem við nú erum að upplifa geti börnin orðið útundan," segir Gunnar Ingi Sigurðsson, forstjóri Hagkaupa í tilkynningunni.

„Því ákváðum við að leggja til þetta framlag. Það er nauðsynlegt að börn fái að upplifa þá gleði sem fylgir því að njóta gleðilegra jóla."