Því er spáð að hagkerfi Bandaríkjanna komi til með að dragast saman um 3,5 prósent á fjórða ársfjórðungi ársins 2008 og um 2 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2009.

Jan Hatzius, sem leiðir hóp hagfræðinga hjá Goldman Sachs, sem settu fram þessa spá segir stefna í mesta samdrátt bandaríska hagkerfisins síðan 1982.

Atvinnuleysi hefur einnig aukist mikið vestanhafs eins og tíðrætt hefur verið. Aukið atvinnuleysi má m.a. rekja til þess að sala á bílum hefur minnkað um 32 af hundraði, sem er það mesta í 26 ár. Bílaframleiðendur hafa því þurft að segja upp gríðarlegum fjölda starfsmanna. Aukið atvinnuleysi er ein helsta vísbending þess að hagkerfið sé enn að veikjast.

Mælingar í Bandaríkjunum sýna einnig að sjálfstraust neytenda hafi dregist saman og hefur það aldrei mælst jafn lágt.

Þykir sýnt í ljósi þessa að Barack Obama mun taka við ansi erfiðu búi.