Hagvöxtur mældist 1,8% í Bretlandi á síðast ári, samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar sem birtar voru í dag. Þetta er 0,1 prósentustigi minna en spár hljóðuðu upp á. Í umfjöllun breska dagblaðsins The Guardian segir um hagvaxtartölurnar að þrátt fyrir að þær hafi ekki náð væntingum þá sé þetta með því mesta sem sést hafi síðan árið 2007. Bent er á að áður en fjármálakreppan skall á hafi hagvöxtur mælst 3,4%.

Hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi í fyrra mældist 0,7% og var það í takt við spár.

Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, spáði því nýverið að hagvöxtur á þessu ári verði með svipuðu móti og fyrir kreppu eða 3,4%. Það er talsverð bæting frá fyrri hagvaxtarspá sem hljóðaði upp á 2,8% hagvöxt á árinu.