"Við gerum ráð fyrir að það sé kröftug sveifla framundan í hagkerfinu en vísbendingar þess efnis hafa hrannast upp að undanförnu," segir Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Kaupþing gaf í dag út nýja hagspá um horfur í hagkerfinu um þessar mundir og allt fram til ársins 2009.

Í spánni kemur meðal annars fram að greiningardeildin býst við því að Seðlabankinn lækki ekki stýrivexti sína fyrr en í mars á næsta ári sem er mun seinna en áður hefur verið gert ráð fyrir. Sem dæmi má nefna að í upphafi þessa árs gerðu flestir ráð fyrir að vaxtalækkunarferilinn myndi hefjast nú í sumar. Ástæðan fyrir þessu að mati greiningardeildar Kaupþings er sú að meðvindurinn í hagkerfinu er sterkari en áður var talið sem mun valda því að hagkerfið verður lengur á flugi.

Merki um kraftinn í hagkerfinu má sjá á nánast öllum mörkuðum að mati greiningardeildarinnar. "Hvort sem er um að ræða sölu á fasteignum, hlutabréfum, bílum, sjónvörpum eða notkun á kreditkortum," segir í spánni. Að mati greiningardeildar er þó um tímabundið ástand að ræða sem breytir ekki þeirri staðreynd að hagsveiflan er að ganga niður eftir undangengna þenslu. "Gríðarleg óvissa ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir og núverandi ástand gæti aðeins verið stund á milli stríða, forleikur að öðru þensluskeiði eða aðeins upphafið að lengri samdrætti," segir í spánni.


Samkvæmt spánni er útlit fyrir að hægja muni verulega á vexti þjóðarútgjalda næstu tvö árin en að hagvöxtur verði knúinn áfram af auknum útflutningi. Gert er ráð fyrir að fjárfestingar þessa árs og þess næsta dragist saman um allt að 25% sem og vöxtur einkaneyslu. Á árunum 2008 til 2009 er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,5-3%. Þá mun krónan haldast sterk út næstu 6 til 12 mánuði og gert er ráð fyrir að krónan nái hámarki sínu á þriðja fjórðungi þessa árs. Gjalddagar krónubréfa í haust munu því ekki hafa áhrif á krónuna til veikingar að mati greiningardeildar Kaupþings. Krónan mun þó gefa eftir á endanum og að öllum líkindum verður það á næsta ári þegar vaxtamunur við útlönd fer minnkandi samtíma því að viðskiptahalli verður áfram hár. Greining Kaupþings gerir ráð fyrir að á einhverjum tímapunkti gæti kólnun íslenska hagkerfisins hafist og verið mun hraðari en væntingar standa til.
Þá er í spá Kaupþings að finna uppfærða verðbólguspá en greiningardeildin gerir ráð fyrir að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiði sínu í lok ársins 2009 en áður hafði verið spáð að bankinn næði markmiði sínu í lok næsta árs. Verðbólguhorfur hafa því versnað talsvert að undanförnu.