*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 26. nóvember 2021 08:33

Hagkerfið að braggast

Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir ýmis jákvæð teikn á lofti í íslensku hagkerfi valdi veiran ekki frekari óvæntum búsifjum.

Ritstjórn
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir fullt tilefni til bjartsýni bæði hvað varðar ferðaþjónustuna og hagkerfið almennt með fyrirvara um að veiran valdi ekki frekari óvæntum búsifjum. Jákvæðar tölur um útflutningstekjur ferðaþjónustunnar sem Hagstofan birti í gærmorgun gefi góð fyrirheit um framhaldið. Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar voru þrefalt meiri en á þriðja ársfjórðungi en fyrir ári sem olli því að afgangur varð á vöru- og þjónustujöfnuði á fjórðungnum.

„Það munar sannarlega um það ferðamannasumar sem þó varð. Það er lykilástæða fyrir því að við fáum afgang af vöru- og þjónustujöfnuði og myndarlegan afgang af þjónustujöfnuðinum. Við sjáum greinilega hvað þetta er fljótt að snúast til betri vegar um leið og ferðamönnum fer að fjölga þó ferðalög okkar Íslendinga hafi líka aukist umtalsvert.“

Viljum við eins ferðaþjónustu og fyrir COVID?

„Því til viðbótar er hver ferðamaður að eyða talsvert hærri fjárhæð en fyrir COVID. Þannig eru þjónustutekjurnar af ferðamönnunum talsvert myndarlegri en bara fjöldi þeirra gefur tilefni til sem er mjög gleðileg þróun.“

Íslandsbanki spáði því í september að ferðamenn yrðu um 600 þúsund á þessu ári og tæplega 1,3 milljónir á næsta ári. „Eftir tvö til þrjú ár má gera ráð fyrir að ferðamenn verði orðnir um og yfir 1,5 milljónir og umfang greinarinnar gæti hæglega orðið sambærilegt og fyrir COVID.“

Hins vegar megi velta fyrir sér hvort Íslendingar vilji stefna á sama fjölda og fyrir COVID. „Þá var þróunin ekki að öllu leyti sú heppilegasta þar sem hluti ferðamanna kom á mjög ódýrum flugmiðum, varði lágum fjárhæðum hér og stoppaði stutt og skiluðu þá kannski ekki ýkja miklum virðisauka.“

Hagkerfið að komast á skrið

Almennt séð megi gera ráð fyrir að hagkerfið taki áfram við sér komi ekki frekari óvænt bakslög tengd veirunni. „Það er ekki að sjá annað en að efnahagsbatinn sé að verða nokkuð almennur. Við höfum séð innlenda eftirspurn taka vel við sér, fjárfesting er á uppleið og útflutningurinn er að braggast. Það er greinilega kominn ágætis skriður á hagkerfið á nýjan leik sem endurspeglast líka í hratt lækkandi atvinnuleysi. Við komum betur undan þessum ólukkans faraldri en við og kannski flestir óttuðust. Staða heimila, fyrirtækja og hins opinbera er almennt sterk. Það er engin ástæða til annars en að vera hóflega bjartsýnn með fyrirvara um ófyrirsjáanleika veirunnar,“ segir Jón Bjarki.