hlutabréf
hlutabréf
© AFP (AFP)
Það mikla umrót sem verið hefur á erlendum fjármálamörkuðum undanfarið hefur takmörkuð áhrif hér á landi samkvæmt greiningu Íslandsbanka. Staða hagkerfisins er gjörbreytt frá því sem var fyrir hrun hvað þetta varðar. Erlend skulda og eignastaða þjóðarbúsins og ekki síst bankakerfisins er nú allt önnur en hún var og gerir það hagkerfið mun ónæmara fyrir erlendum áhrifum umróts. Þá takmarka gjaldeyrishöftin áhrif á gengi krónunnar segir í morgunkorni Íslandsbanka.

Staðan undirstrikar hvað uppbygging hagkerfisins ræður miklu um áhrifin af  erlendum áföllum. Segja má að íslenskt hagkerfi hafi sveiflast stanganna á milli í þeim efnum á síðustu árum þ.e. frá því að vera galopið og afar næmt fyrir erlendum áhrifum yfir í að vera lokað og ónæmt.

Þá segir að ef frá eru taldar eignir innlánsstofnanna í slitameðferð voru erlendar eignir þjóðarbúsins 2.515 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2011. Af því var hlutafé 690 milljarðar króna og bein fjárfesting erlendis 683 milljörðum króna. Í lok árs 2007 voru þessar eignir 6.720 milljarðar krónur og af því hlutafé upp á 1.278 milljarða krónur og bein fjárfesting erlendis 1.554 milljarðar krónur. Landinn á því mun minna undir þróun erlendra eignamarkaða en áður en erlenda eignastaðan er þó enn talsverð.