Eftir sterkan fyrri árshelming 2018 er útlit fyrir að hagkerfið sé að snöggkólna að því er fram kemur í nýrri hagspá greiningardeildar Arion banka fyrir árin 2018-2021. Reiknar bankinn með að hratt hægi á hagvexti og að hann verði 1,3% á næsta ári, sem er jafnlítill hagvöxtur og árið 2012 en bankinn hafði áður spáð að vöxturinn yrði 3,0%.

Íslandsbanki spáði í síðasta mánuði að hagvöxturinn yrði 1,5% á næsta ári. Sem fyrr munu einkaneyslan og fjárfesting draga vagninn að mati Arion banka, á meðan utanríkisverslun leggur hönd á plóg. Óvissan um efnahagshorfur hefur aukist að undanförnu, og hefur það endurspeglast í snarpri gengisveikingu, stígandi verðbólguvæntingum og aukinni svartsýni.

Helstu áhættuþættir um þessar mundir eru spenna á vinnumarkaði og staða ferðaþjónustunnar segir í hagspá bankans.
„Við spáum launahækkunum umfram það sem samrýmist verðstöðugleika og lítilsháttar vexti í komum ferðamanna,“ segir í hagspánni.

„Þrátt fyrir spá um minniháttar gengisstyrkingu á næsta ári mun krónan veikjast eftir því sem líður á spátímann og verður verðbólga yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.“