*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 18. maí 2021 14:00

Hagkerfið tekið að rétta sig við

Spá Landsbanks telur að landsframleiðsla muni vaxa um 4,9% á árinu og að spennu á fasteignamarkaði muni linna með tímanum.

Ritstjórn
Hagfræðideild Landsbankans gefur út spánna.
Haraldur Guðjónsson

Hagfræðideild Landsbankans telur að efnhagsbatinn sé hafinn og að landsframleiðsla muni vaxa um 4,9% á árinu. Þetta kemur fram í Þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans.

Reiknað er með að landsframleiðslan muni aukast um 4,9% á árinu. Mikill samdráttur varð í landsframleiðslu í fyrra í kjölfar faraldursins og dróst hún saman um 6,6% eftir níu ára hagvaxtarskeið. Þar af dróst útflutningur saman um 30,5% sem að skýrist að mestu leyti af samdrætti í þjónustu og þá einna helst ferðaþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að heimsframleiðsla hafi dregist um 3,3% í fyrra. Þá var samdrátturinn hér á landi umtalsvert meiri en á hinum Norðurlöndunum.

Samdráttur í hagkerfinu hefur ekki skaðað kaupmátt en hann hækkar um 6,1% á milli ára. Árshækkun launavísitölunnar var 10,4% í mars og er gert ráð fyrir því að hún muni hækka um 7,9% á þessu ári og um 5,6% á næsta ári. Heildarlaunagreiðslur eru svipaðar og við byrjun árs en 2019 en mun hærra atvinnuleysi er nú en þá.

Atvinnuleysi var 10,4% í apríl samkvæmt Vinnumálastofnun og reiknar Landsbankinn með því að atvinnuleysi verði 8,6% á þessu ári og 5,3% á næsta ári. Gert er ráð fyrir um 800.000 erlendum ferðamönnum í ár, 1,5 milljónum á næsta ári og um 2 milljónum árið 2023. Gangi sú spá eftir má reikna með að um 11.500 ný störf skapist í ferðaþjónustu árið 2023.

Dregur úr spennu á fasteignamarkaði þegar líður á tímann

Viðskiptablaðið fjallaði í gær um að fasteignaverð hafi hækkað um 3,3% í mars sem er það mesta á einum mánuði frá 2007. Þá hefur íbúðaverð hækkað um 10,7% síðustu 12 mánuði. Spá bankans gerir ráð fyrir því að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár en að svo muni fara að hægja á hækkunum næstu ár.

 „Skörp hækkun íbúðaverðs síðustu mánuði skapar þrýsting á verðbólgu. Útlit er fyrir áframhaldandi spennu á fasteignamarkaði meðan vextir eru í sögulegu lágmarki, kaupmáttur mikill og framboð lánsfjár gott," segir í spánni. Þá er reiknað með að spenna á fasteignamarkaði og eftirspurn fari að minnka þegar að vextir hækka, en búist er við því að meginvextir Seðlabankans muni hækka úr 0,75% í 2,75% fyrir lok árs 2023.

Þá hafa verðbólguhorfur versnað sökum hækkandi launakostnaður og fasteignaverðs en frá byrjun árs 2020 skýrist verðbólga nær alfarið af hækkunum innfluttra vara sökum veikingu krónunnar. Krónan hefur verið að sækja í sig veðrið upp á síðkastið og er búist við því að hún verði 145 krónur við ársbyrjun 2022.

Stikkorð: Landsbankinn hagspá