Áhyggjur af ástandi efnahagsmála í heiminum, sem byrjuðu í fyrra og uxu í byrjun þessa árs, hafa enn farið vaxandi undanfarna daga. Á þriðjudaginn vöknuðu markaðsaðilar við þau vondu tíðindi að útflutningur frá Kína reyndist hafa verið 25,4% minni í febrúar heldur en árið áður. Innflutningur var 13,8% minni.

Á fundi National Association for Business Economics sem haldinn var á þriðjudaginn sagði David Lipton, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), að hagkerfi heimsins væru greinilega á viðkvæmum stað og að hættan á því að heimsbúskapurinn fari út af sporinu hafi aukist. Lipton hvatti meðlimi G20 ríkjahópsins til tafarlausra aðgerða. Hann hvatti til þess að peningastefnu og ríkisfjármálum yrði beitt til þess að auka eftirspurn, auk þess sem hann hvatti ríki heims til að ráðast í breytingar á stofnanakerfum til þess að minnka áhættuþættina.

„Nýjustu mælingar AGS benda enn og aftur til þess að grunnspáin sé að veikjast (e. weakening baseline),“ sagði Lipton í erindi sínu. „Ofan á það hafa áhættuþættirnir vaxið enn frekar. Óstöðugir fjármálamarkaðir og lágt hrávöruverð hafa skapað nýjar áhyggjur af heilbrigði hins alþjóðlega hagkerfis.“

Hvetur til opinberra fjárfestinga

Fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan töldu flestir greiningaraðilar líklegt að bandaríski seðlabankinn myndi hækka stýrivexti sína í ljósi stöðugs efnahagsbata þar í landi. Seðlabankinn hafði enda sjálfur gefið það út að vaxtahækkunarferli væri líklegt. Þessar spár, ásamt lækkandi hrávöruverði drifnu áfram af umframframboði á olíu, urðu kveikjan að fjármagnsflótta úr fjölda nýmarkaðsríkja á síðasta ári. Ofan á þetta bætist að hægt hefur á efnahagsbatanum í mörgum þróuðum hagkerfum, meðal annars víða í Evrópu.

Í ræðu sinni á þriðjudaginn benti Lipton einmitt á þennan seinni þátt – að efnahagsbati undanfarinna ára í þróuðum hagkerfum hefði byggst á of veikum stoðum. „Víða í Evrópu, svo dæmi sé tekið, er skuldsetning hins opinbera og einkageirans enn mikil og hlutfall slæmra lána í bankakerfinu ennþá hátt. Í Bandaríkjunum grafa öldrunartengd útgjöld og óuppfyllt þörf fyrir innviðafjárfestingu undan vaxtarhorfum. Og í Japan er efnahagsbatinn í hættu vegna verðhjöðnunar,“ sagði Lipton og benti einnig á áhættuþætti á borð við flóttamannavandann og stirðnandi samskipti milli þjóða heimsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .