Íbúðaverð hefur hækkað umfram byggingarkostnað undanfarið og því er hagkvæmara en áður að byggja fremur en að kaupa notað, að mati Greiningar Íslandsbanka sem fjallar um verðþróun á fasteignamarkaði síðustu misserin. Fasteignaverðið hefur hækkað um 6,5% á síðastliðnum tólf mánuðum, velta á fasteignamarkaði aukist og meðalsölutími fasteigna styst.

Greining Íslandsbanka segir:

„Samhliða hækkun húsnæðisverðs hefur fjárfesting í íbúðarhúsnæði tekið við sér. Nemur aukningin frá fyrsta ársfjórðungi 2010 til fyrsta ársfjórðungs í ár 23% að raunvirði og reiknum við með því að í ár muni hún aukast um 18%. Skýrist þessi vöxtur að einhverju marki af því að íbúðaverð hefur undanfarið verið að hækka umfram byggingarkostnað þannig að það er hagkvæmara en það var áður að byggja fremur en að kaupa notað. Þrátt fyrir talsverðan vöxt er íbúðafjárfesting enn lítil í hlutfalli af landsframleiðslu og reiknum við með því að svo verði staðan um sinn þrátt fyrir að við séum áfram að gera ráð fyrir dágóðum vexti í þessum hluta fjárfestinga í efnahagslífinu.“