ST2 strenglagnavél sem félagið Línuborun hefur á sínum snærum, er bylting við lagningu strengja og röra hér á landi að sögn Hróars Björnssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. ST2 Strenglagnavélin stytti framkvæmdatíma, valdi minna jarðraski og umhverfismengun sé minni. Þannig sé hún hagkvæmari og umhverfisvænni valkostur við lagningu strengja og röra ofan í jörðu heldur en það verklag sem hefð er fyrir að beita við slíka vinnu.

„Vélin getur lagt nokkur ídráttarrör í einu og getur lagt allt að 300 mm kaldavatnslögn, ljósleiðara og háspennustrengi. Hún getur sagað allt að 60 cm breiðan skurð og dýptin getur verið allt að 140 cm. Strenglagnavélin er gríðarlega afkastamikil - þegar búið er að þræða vélina í gegn með köplum eða ídráttarrörum og hún er komin af stað getur hún sagað 500-800 metra á dag í klöpp. Á hefðbundna mátann eru tvær beltavélar að fleyga um 70-80 metra á dag. Það er því talsverður munur á afkastagetu vélarinnar og hefðbundna verklagsins. Framkvæmdatími styttist verulega með tilkomu vélarinnar og það eru einnig færri tæki sem koma að verkinu þegar þessi vél er í notkun. Strenglagnavélin sagar lagnaskurðinn, sandar undir og yfir lagnir og leggur strenginn og aðvörunarborða allt í einni ferð."

Hróar segir helsta hlutverk Línuborunar einmitt vera að bjóða upp á lausnir og veita framúrskarandi þjónustu með sem hagkvæmustum hætti, og valda um leið sem minnstu jarðraski. Línuborun hafi ætíð verið skrefinu framar hvað tækjakosti varðar til að komast til móts við viðskiptavini og umhverfið.

Sérfræðingar horfi meira til ST2 vélarinnar

Línuborun keypti umrædda ST2 strenglagnavél hingað til lands árið 2016 og hefur hún þegar farið í þónokkur verkefni. Hróar kveðst þó vilja sjá hana í enn fleiri verkefnum. „Í því samhengi myndi ég helst hvetja verkfræðistofur til að skoða vélina betur, upp á það að geta þá komið hennar skurðsniði betur að í útboðum. Ég hvet verkfræðistofur sem eru að vinna að hönnun lagnaleiða og teikna upp skurðsniðin, að horfa meira til vélarinnar og hvernig hún getur unnið tiltekin verk."  Með notkun strenglagnavél sé aldrei opinn skurður og strengir því ekki í hættu á að verða fyrir skemmdum. Auk þess þurfi ekki að grjóthreinsa eða dæla vatni úr lagna skurðum.

Hróar bendir á að markmið orku- og veitufyrirtækja, þar á meðal Landsnets og RARIK, sé að færa strengi úr lofti niður í jörð. ST2 vélin geti hjálpað til við að gera þetta markmið fyrirtækjanna að veruleika. „Með tilkomu vélarinnar þá getur framkvæmdahraðinn orðið mun meiri heldur en á þennan hefðbundna máta, auk þess sem því myndi fylgja minni tilkostnaður. Við bjóðum einnig upp á heildarlausn við þessi verk og getum því séð um framkvæmdina frá A-Ö. Sem sparar einnig tíma og fjármuni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .