Tekjur Hampiðju samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2005 námu 26,9 milljónum evra og jukust um 3,5% frá sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 2,2 milljónir evra samanborið við 1,8 milljónir evra á sama timabili árið áður.

Fjármunatekjur að frádregnum fjármagnsgjöldum var 31 þús. evra til tekna en var 584 þús. evra til gjalda á sama tímabili í fyrra. Ræður þar mestu gengismunur vegna veltufjármuna sem eru í annarri mynt en evrum en einnig var nokkur hagnaður af sölu hlutabréfa.

Eignarhlutur Hampiðjunnar í HB Granda var í lok tímabilsins 9,4% og nam hlutdeildarhagnaður á tímabilinu 390 þús. evra en var 74 þús. evrur á sama tíma í fyrra.

Heildareignir samstæðunnar voru kr. 76,9 milljónir evra í lok tímabilsins. Eigið fé, með hlutdeild minnihluta, nam 34,2 milljónum evra. Skuldir námu 42,7 milljónum evra. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er talin með eigin fé, var í lok tímabilsins 44% af heildareignum samstæðunnar.