Hagnaður Sparisjóðs Svarfdæla fyrstu sex mánuði ársins 2004 nam 91,3 millj. kr. samanborið við 68,2 millj. kr. á árinu 2003. Vaxtatekjur sparisjóðsins á tímabilinu janúar til júní 2004 námu 107,0 millj. kr. og vaxtagjöld 37,5 millj. kr. Hreinar vaxtatekjur námu því 69,6 millj. kr. samanborið við 157,3 millj. kr. á árinu 2003. Aðrar rekstrartekjur voru 138,7 millj. kr. á tímabilinu og hækka um 32,9 millj. kr. miðað við allt árið 2003 sem stafar einkum af gengishagnaði af markaðsverðbréfum enda markaðir hagstæðir á tímabilinu.

Rekstrarkostnaður fyrstu sex mánuði ársins nam alls 64,7 millj. kr. samanborið við 116,0 millj. kr. á árinu 2003. Kostnaðarhlutfall, það er rekstrargjöld sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum, var 31,1% á tímabilinu á móti 44,1% árið áður.

Framlag í afskriftareikning útlána var 31,8 millj. kr. á fyrstu sex mánuðum ársins 2004 en var 64,0 millj. kr. á árinu 2003. Afskriftareikningur útlána í hlutfalli af útlánum og veittum ábyrgðum nam 8,0% í lok júní en hlutfallið um síðustu áramót var 8,2%.

Heildarinnlán í sparisjóðnum í lok júní námu 1.675,6 millj. kr. sem er minnkun um 33,0 millj. kr. frá árslokum 2003. Útlán sparisjóðsins námu 1.215,9 millj. kr. í lok júní sem er aukning um 6,6 millj. kr. Heildareignir í lok júní námu 2.342,1 millj. kr. sem er hækkun um 72,5 millj. kr. frá áramótum. Eigið fé sparisjóðsins í lok tímabilsins nam 530,1 millj. kr. og hefur vaxið um 90,4 millj. kr. frá áramótum eða um 20,6%. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum er 22,0% en var 19,5% um síðustu áramót.