Eik banki, sem skráður er í Kauphöll Íslands, skilaði 393 milljóna danskra króna hagnaði árið 2007 eða 5,1 milljarði króna, sem er um 57% hærri upphæð en árið 2006 og mesti hagnaður í sögu bankans. Afkoma af grunnstarfsemi, þ.e. hreinar vaxtatekjur og þóknunartekjur að viðbættum hreinum hagnaði eða tapi af gjaldeyrisstöðu, batnaði um þriðjung milli ára eins og bent er á í Vegvísi Landsbankans. Arðsemi eigin fjár jókst úr rúmum 27% árið 2006 í rúm 32% á síðasta ári. Vaxtamunur bankans lækkar hinsvegar milli ára, úr 2,3% af heildareignum í 1,7%.

Á síðasta ári jukust útlán bankans um 89% og innlán um 117%. Mikinn hluta aukningarinnar má rekja til kaupa bankans á Skandia Banken, stærsta netbanka Danmerkur. Þá keypti bankinn einnig Privestor Fondsmæglerselskab, sem sérhæfir sig í eignastýringu og ráðgjöf um fjárfestingu í vogunarsjóðum, verðbréfaritið Finansnyt í Kaupmannahöfn og fasteignafélagið Sethúsasölan í Færeyjum.

Í lok ársins keypti Eik banki starfsemi Kaupþings í Færeyjum en við það eykst markaðshlutdeild Eikar í Færeyjum í þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga í um 50% að því er fram kemur í ársskýrslu bankans. Fram kemur í skýrslunni að til að fjármagna kaupin á starfsemi Kaupþings tók bankinn lán að fjárhæð 1 milljarði danskra króna. Vegna kjara á mörkuðum er lánið til eins árs með möguleika á framlengingu um hluta upphæðarinnar til eins árs í viðbót. Kaupin á Skandia Bankanum voru hinsvegar fjármögnuð með aukningu hlutafjár að verðmæti um 584 m DKK. Kaupin á starfsemi Kaupþings höfðu ekki áhrif á reikninga bankans árið 2007.

Eiginfjárhlutfall bankans er um 12% en laust fé óx á síðasta ári um 1,9 ma. DKK í 4,4 ma. DKK. Bankinn býst við að fjármögnunarkostnaður vaxi á þessu ári vegna aðstæðna á alþjóðlegum lánamörkuðum, en endurfjármagna þarf um 900 m DKK á árinu.

Þó nokkur gengislækkun frá skráningu Hlutabréf Eikar banka voru skráð í Kauphöll Íslands og í Kaupmannahöfn á síðasta ári. Við skráningu var gengi bréfa í félaginu um 705 kr. á hlut en gengið hefur um lækkað um tæp 40% í takt við breytingar á íslenska markaðnum og stóð við lokun markaðar í dag í 431 kr. Samkvæmt tillögu stjórnar mega hluthafar búast við 10 DKK arðgreiðslu á hlut á þessu ári í stað 5 DKK á síðasta ári.