*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 8. desember 2019 10:55

Hagnaðarhlutfallið fer lækkandi

Hagnaðarhlutfall í bygginga- og mannvirkjagerð hefur ekki verið lægra í síðan 2014.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt yfirliti Hagstofunnar yfir rekstrarreikninga í viðskiptahagkerfinu námu tekjur fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um 393 milljörðum króna á síðasta ári og jukust þær um 5% á milli ára en fjöldi fyrirtækjanna var 5.239 á síðasta ári. Þrátt fyrir að tekjur hafi aukist versnaði heildarafkoman hins vegar um 24% og nam tæplega 25,3 milljörðum króna.

Þegar horft er yfir síðustu 5 ár hafa tekjur aukist um 95,7% milli áranna 2014 og 2018 en þess ber að geta að upphæðirnar eru á verðlagi hvers árs fyrir sig. Jafngildir vöxtur árlegum meðalvexti upp á 14,4% á síðustu fimm árum. Á sama tímabili hefur launakostnaður aukist um 92% og er heildarlaunahlutfallið því 0,5 prósentustigum lægra en það var árið 2014 en hefur þó hækkað um 2,6 prósentustig á síðustu tveimur árum.

Þegar afkoma í greininni er skoðuð fimm ár aftur í tímann sést að árið í fyrra var verra en árin tvö þar á undan en þó töluvert betra en árið 2014 og 2015 en samanlagður hagnaður þau ár nam 9,5 og 18 milljörðum auk þess sem hann nam 28 milljörðum árið 2016. Sé hagnaður hins vegar skoðaður sem hlutfall af tekjum þá var hagnaðarhlutfall síðasta árs það lægsta frá árinu 2014. Hlutfallið var 6,4% á síðasta ári en var 4,7% árið 2014.