Sex stærstu hugbúnaðarfyrirtæki landsins högnuðust um samtals 1,5 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 4,6 milljarða árið á undan. Dróst hagnaður fyrirtækjanna því saman um tæp 70% milli ára.

Alls komast sex hugbúnaðarfyrirtæki á lista yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins í ár, en hugbúnaðargeirinn á Íslandi telur mun fleiri fyrirtæki í heild sinni. Fyrirtækin sex eru mismunandi, enda þjónusta þau mismunandi greinar atvinnulífsins. Samanlögð velta þeirra nam 29,6 milljörðum króna í fyrra samanborið við 31,4 milljarða árið á undan.

Stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins, CCP, framleiðir tölvuleiki, en þekktasta vara fyrirtækisins er EVE Online, sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Fyrirtækið var keypt af kóreska leikjaframleiðandanum Pearl Abyss fyrr í haust á um 46 milljarða íslenskra króna. CCP velti 8,7 milljörðum króna í fyrra samanborið við rúmlega 10 milljarða árið á undan. Hagnaður félagsins nam rúmum 360 milljónum en árið áður nam hagnaðurinn 2,6 milljörðum. Eigið fé CCP nam 4,7 milljörðum og var arðsemi þess 7,7%. CCP réðst í endurskipulagningu á rekstrinum á síðasta ári, sem fól meðal annars í sér að setja þróun leikja í sýndarveruleika á ís ásamt því að loka eða selja starfsstöðvar.

Annað stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins, LS Retail, þróar afgreiðsluhugbúnað fyrir fyrirtæki í verslunar- og veitingarekstri. Fyrirtækið velti 5,8 milljörðum króna í fyrra samanborið við 6,2 milljarða árið á undan. LS Retail tapaði 126 milljónum á síðasta ári en hagnaðist um 265 milljónir árið 2016.

Reiknistofa bankanna (RB) velti 5,2 milljörðum króna á síðasta ári og jókst veltan um 10% milli ára. Fyrirtækið þróar og rekur ýmsar hugbúnaðarlausnir fyrir fjármálafyrirtæki, meðal annars öll megin greiðslukerfi landsins. RB hagnaðist um 51,6 milljónir, sem er helmingi minni hagnaður en árið á undan. RB er í eigu bankanna, kortafyrirtækja og sparisjóða.

Creditinfo Group þróar og rekur hugbúnaðarkerfi á sviði miðlunar fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, meðal annars til að auðvelda ákvarðanatöku lánveitenda. Fyrirtækið velti 3,5 milljörðum í fyrra samanborið við 3,7 milljarða árið 2016. Creditinfo tapaði 309,7 milljónum króna en hagnaðist um 182 milljónir árið á undan.

Íslenska skrifstofa austurríska hugbúnaðarfyrirtækisins Novomatic Lottery Solutions, sem hannar hugbúnað fyrir ríkisrekin lotterí víða um heim, velti 3,4 milljörðum króna á síðasta ári. Árið á undan velti fyrirtækið 3,7 milljörðum. Novomatic Lottery Solutions á Íslandi jók þó hagnað sinn um tæplega 43% milli ára, úr 452,8 milljónum í 645,4 milljónir. Eigið fé félagsins nam 2,1 milljarði í lok síðasta árs og var arðsemi þess 50,7%. Fyrr á þessu ári var 18 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp eftir að stór kúnni sleit samningi við austurríska móðurfélagið. Útibú samsteypunnar á Íslandi var áður íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Betware, en Novomatic keypti 90% hlut í félaginu árið 2013.

Þá nam velta Sabre Iceland, hugbúnaðarfyrirtækis á flugrekstrarsviði, rúmum þremur milljörðum á síðasta ári og var stöðug milli ára. Hagnaður félagsins nam 864,7 milljónum en var rúmur milljarður árið á undan. Eigið fé Sabre Iceland nam 2,9 milljörðum í lok síðasta árs og var ávöxtun þess 45,5%. Sabre Iceland er í eigu Sabre Holdings, móðurfélags Sabre Airlines Solutions, eins stærsta hugbúnaðarfyrirtækis sem þróar hugbúnað fyrir tölvukerfi flugfélaga. Sabre Iceland hét áður Calidris en var keypt af Sabre Holdings árið 2010.

Eignir sex stærstu hugbúnaðarfyrirtækjanna voru bókfærðar á samtals 27,4 milljarða króna undir lok síðasta árs. Eigið fé nam 14,1 milljarði. Eiginfjárhlutfall CCP var 59%, 47% hjá LS Retail, 34% hjá Reiknistofu bankanna, 27% hjá Creditinfo Group, 69% hjá Novomatic og 85% hjá Sabre Iceland.

Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki skapa þó nokkrar gjaldeyristekjur fyrir íslenska þjóðarbúið, enda flest með viðskiptavini um allan heim. CCP þjónustar til að mynda fleiri viðskiptavini en sem nemur öllum Íslendingum í hverjum mánuði. EVE Online hefur á undanförnum 15 árum aflað meira en 700 milljóna dollara í erlendum gjaldeyri inn í íslenskt hagkerfi, eða því sem nemur yfir 80 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Hugbúnaður LS Retail er notaður í yfir 66 þúsund verslunum og veitingastöðum í 120 löndum. Þá er Creditinfo með starfsemi í 25 löndum í fjórum heimsálfum.

Einnig má sjá á ofangreindum hugbúnaðarfyrirtækjum, að íslensk fyrirtæki í geiranum eru gjarnan yfirtökuskotmörk erlendra hugbúnaðarfyrirtækja, sem skilar háum fjárhæðum í hagkerfið. Svo fleiri dæmi séu tekin af slíkum yfirtökum á undanförnum árum má nefna sölu Greenqloud til NetApp, Modio til Autodesk og CLARA til Jive Software.

Vegna þess hve stór hluti tekna íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja kemur frá útlöndum hefur styrking krónunnar á síðustu árum komið sér illa fyrir fyrirtækin. Einnig hefur rekstrarkostnaður þeirra, sem er aðallega í krónum, aukist verulega, ekki síst vegna mikilla launahækkana. Alls störfuðu að meðaltali 1.309 manns hjá sex stærstu hugbúnaðarfyrirtækjunum í fyrra. Beinn launakostnaður þeirra í íslenskum krónum nam 11,8 milljörðum á síðasta ári og jókst um 12% milli ára.

Mikil sprenging hefur orðið á síðustu sex árum í aðsókn nemenda í nám tengd hugbúnaðargeiranum, svo sem tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði. Til að mynda eru umsóknir í grunnnám í Háskólann í Reykjavík (HR) flestar í tölvunarfræði, en af þeim 591 nemanda sem skólinn brautskráði í júní síðastliðnum voru 120 úr tölvunarfræðideild. Aðsóknin þarf ekki að vekja furðu, enda býður sívaxandi tölvu- og tæknivæðing upp á mikla atvinnumöguleika og há laun bæði á Íslandi og erlendis.

Nánar er fjallað um málið í 300 stærstu , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar Verslunar. Hægt er að kaupa bókina hér .