Halla Sigrún Hjartardóttir, núverandi stjórnarformaður FME og fyrrverandi starfsmaður í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, hagnaðist ekki á sölu Skeljungs síðla árs 2013. Þetta fullyrða Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Einar Örn Ólafsson. Þetta kemur einnig fram í yfirlýsingu sem Halla Sigrún sendi frá sér 29. október síðastliðinn. Hið sama gildi um félögin Einarsmel ehf. og Nolt ehf.

Fóru öll frá Íslandsbanka áður en þau eignuðust í Heddu

Eins og kom fram í Morgunblaðinu 28. október störfuðu þau Halla Sigrún, Einar Örn og Kári Þór Guðjónsson hjá fyrirtækjaráðgjöf Glitnis þegar meirihluti Skeljungs var seldur til félagsins Skel Investments fyrir hrun árið 2008.

Skömmu síðar var Einari Erni sagt upp störfum hjá fyrirtækjaráðgjöf bankans vegna trúnaðarbrests, en fljótlega eftir það eða í maí 2009, var Einar Örn ráðinn sem framkvæmdastjóri Skeljungs af nýjum meirihlutaeigendum, eftir að hafa haft aðkomu að sölu félagsins frá Íslandsbanka skömmu áður. Kári Þór mun hafa sagt upp störfum hjá bankanum um svipað leyti. Eigendur Skel Investments voru þá Svanhildur Nanna, Guðmundur Örn Þórðarson og Birgir Bieltvedt.

49% hlutur Íslandsbanka í Skeljungi var síðan seldur SNV Holding árið 2010 fyrir á fjórða hundrað milljónir króna, eftir að hafa verið í söluferli hjá fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka þar sem Halla Sigrún starfaði enn. Birgir Bieltvedt var þá ekki lengur í hluthafahópi SNV Holding. Mun Halla Sigrún hafa sagt upp störfum árið 2011, skömmu áður en hún eignaðist hlut sinn í Heddu.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka er ekki útilokað að bankinn aðhafist frekar í málinu, til dæmis með útgáfu kæru til FME, í ljósi nýrra upplýsinga sem hafa komið fram í málinu á síðustudögum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .