Vitaly Orlov er merkilega lítið þekktur utan heimalandsins Rússlands, þótt hann hafi um áratugaskeið starfað víða um heim og alltaf í sjávarútvegi. Hann mun til dæmis hafa verið á tímabili með norskan ríkisborgararétt, sem hann afsalaði sér árið 2014, og eins bjó hann um skeið í Sviss. Fyrirtækjasamstæða Orlovs ræður nú um 15% af rússneskum fiskveiðiheimildum í þorski, síld og lý og er auður hans metinn á einn milljarð dala, eða um 115 milljarða króna. Í fyrra veiddu fyrirtæki Orlovs um 11% af öllum fiski sem veiddur var í rússneskri lögsögu.

Deilur Vladimírs Pútin Rússlandsforseta við Vesturveldin hafa falið í sér mikil og gróðavænleg tækifæri fyrir Orlov. Þegar viðskiptaþvinganir Vesturveldanna voru settar á afmarkaðan hóp fyrirtækja og einstaklinga í Rússlandi brást Pútin við með því m.a. að banna innflutning á matvælum frá þeim löndum sem tóku þátt í þvingununum, Íslandi þar á meðal. Deilurnar höfðu engin áhrif á útflutningsstarfsemi Orlovs, enda tók bann vesturveldanna ekki á matvælaútflutningi, en styrkti mjög stöðu samstæðunnar á Rússlandsmarkaði.

Eftirspurn eftir síld, makríl og loðnu frá fyrirtækjum Orlovs jókst mjög í Rússlandi og hafði það mjög jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækjanna. Þá hefur hrun í gengi rúblunnar haft mjög jákvæð áhrif á samstæðuna, en um 60% af tekjum hennar koma frá fiskútflutningi en rekstrarkostnaður er nær alfarið í rússneskum rúblum. Eins hefur hækkandi heimsmarkaðsverð á fiski gagnast samstæðunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .